Færsluflokkur: Bloggar

Váááá´...

...hvað það er langt síðan síðast! Þetta verður að vísu ekki langt í þetta skiptið en vonandi stutt í næsta.

Ég er sumsé ekki komin með net heima í sveitinni, búin að fá upplýsingar um að þar geti ég enga tengingu fengið nema ISDN sem er svo hægvork að ég hef ekkert við hana að gera svo ég bara bíð eftir því að tæknin nái alla leið þangað uppeftir!

Höski minn: Alvöru sveit, já! Ég fæ að vísu póst á hverjum degi og er ekki með nein kusugrey... Rollur erum við með á næsta bæ en þar býr tengdapabbi og þar erum við að byggja okkur hús. Við erum aftur á móti með hund, 2 börn, uþb 100 hreindýr í túni, mink á þvælingi og svo heyrist reglulega tófugagg. Niðursstaða mín er sú að þetta sé sko alvöru!

Annars er allt gott að frétta af okkur, nenni nú ekki að telja upp allt sem á daga okkar hefur drifið, við erum allavega heil og þokkalega í lagi.

Bestu kveðjur til ykkar allra sem ekki eruð búin að gleyma mér... Gunnsa tunnsa


Það er ástæða fyrir því...

... að ég þegi, veit það gerist ekki oft.

Ég er flutt í sveitina og þar er ekki netsamband, sumsé ALVÖRU sveit! Eigum eftir að skoða möguleikana á neti þarna uppfrá en þangað til bið ég ykkur vel að lifa.


Loksins!

Það kom að því að ég fengi lengra vetrarveður en 2 daga! Hér fullt af snjó enda búið að snjóa síðan á fimmtudag, í dag e svo frost og þoka. Verð að viðurkenna að mér finnst þetta yndislegt.

Við erum að fara að flytja, erum búin að kaupa okkur hús á Teigabóli (í sveitinni!) sem er fokhelt svo það er mikil vinna framundan. Ætlum að leigja í Holti til að byrja með en það er næsti bær við Teigaból. Ég á alveg eins von á því að fara þangað í vikunni en það fer efir vinnunni hjá Einari. Þann dag sem hann þarf ekki að vinna verður fenginn bíll og flutt! Þar með verð ég lögleg sveitakona LoL

Annars er lifið rólegt og yndislegt hjá mér, er bara heima að dóla mér með lillanum og svo báðum pjökkunum mínum eftir að sá eldri kemur heim. Mér finnst tíminn alltof fljótur að líða enda er Ragnar Sölvi orðinn 8 mánaða! Ég fer reyndar ekki að vinna aftur fyrr en í endaðan júlí en miðað við tímann hingað til þá er ekki langt þangað til...

Þorrablótið á laugardaginn var GEGGJAÐ!!!! 3ja blótið mitt hér og það laaaaaaang besta. Við erum í nefnd á næsta ári og ef við eigum að halda þessari gleði við þá bíður okkar mikil vinna á næsta ári.

Farin að eta kjetsúpuna síðan í gær... Ekkert saltkjet hér í dag...


Það hlaut að koma að því...

...að við fengjum eitthvað af þessu veðri sem alltaf er að ganga yfir allt landið en hefur aldrei haft viðkomu hér á Héraði. Svona þannig séð... Það hefur allavega ekki verið neitt stórkostlegt vetrarveður hér miðað við annarsstaðar á landinu. Í dag er hvasst, ofankoma, skafrenningur og læti! Alvöru bylur sumsé. Enda hef ég alltaf sagt það að mér finnist nú frekar skrýtið að flytja svona langt frá höfuðborginni og fá svo aldrei almennilegan vetur!

Svona veðri fylgir þó leti, sem er ekki gott þessa dagana vegna þess að á mínu heimili er nóg um að vera! Er að fara að flytja. Já, nú ætlar konan að gerast alvöru sveitakona og flýja úr þéttbýlinu, HÚRRA FYRIR ÞVÍ! Við erum búin að kaupa hús sem er fokhelt og stendur á lóð Teigabóls, heimahögum Einars. Á meðan við klárum það ætlum við að hafa okkar heimavistir í Holti sem er næsti bær við Teigaból. Frumburðurinn getur ekki beðið eftir því að komast í sveitina enda ægilegt sport að fara með skólabíl í skólann.

Fór í þetta ægilega fína dekur i gær sem ég mæli með fyrir ALLA! Ég átti gjafabréf á snyrtistofu og ákvað að fara í eittvað sem ég leyfi mér aldrei, reyndar fer ég aldrei á snyrtistofur ef útí það er farið... Eníhú; fór sumsé í andlitsbað sem tók nærri tvo tíma takk fyrir og maður minn, þvílíkt dekur! Ég var þvegin, sótthreinsuð, settur maski, kreyst, plokkuð, nudduð í andliti, á herðum og niður á bringu, hreinsuð betur, kremborin og olíuborin. Eftirá leið mér eins og ég væri tigniborin. Svona hlýtur drottningum að líða...

Þorrablót Fellamanna er á laugardag og er mikil tilhlökkun á mínu heimili enda ætla hjónakornin að skella sér. Gleði gleði! Frumburðurinn er líka að kafna úr spenningi því Heiða frænka og Brian ætla að passa og þá fær maðurinn sko að panta pizzu. Það þarf ekki mikið til að gleðja 6 ára...

Læt þetta duga í bili, munið eftir kommentum og gestabók Wink


Martröð...

"Mammaaaaaaa, ég er búinn að gubba á gólfiiiiiiið.......". Mikill grátur fylgdi þessu góli. Við þetta vaknaði ég klukkan 1 í nótt, frumburðurinn kominn með gubbupest, greit! Hljóp inní herbergi til hans, henti handklæði yfir slettuna og leiddi hann fram í stofu með fötu. Ég fór að verka upp. Eftir smá stund sagðist hann vera svangur! Rétti honum 3 saltstangir og ogguítið goslaust kók í glas. Eftir eina og hálfa stöng kom hrina tvö. Hálffyllti fötuna greyið og var gjersamlega búinn á því á eftir. Bjó um okkur í stofunni, hann á gólfinu vopnaður fötu og bala, og ég í sófanum. Hann sofnaði fljótt en ég vakti hann um 3 þegar mér fannst hann eitthvað skrítinn. Þá reis hann upp, reif í fötuna og setti slatta í hana. Tæmdi mallann en kúgaðist svo þessi ósköp á eftir, allt búið úr maganum...

...Ég náði að sofna um sex en litli mann vaknaði hálfsjö til að drekka. Fór þá inn til hans, gaf honum og svo aftur fram, dormaði til átta en þá vaknaði lillinn aftur og heimtaði meira! Við kúrðum svo til að verða níu.

Það hefur ekkert meira komið uppúr Venna síðan í nótt en ræfillinn liggur enn á dýnunni og er með 39stiga hita takk fyrir! Það verður semsagt ekki skóli á morgun heldur...

Þeir sem þekkja mig vita að ég er með ælufóbíu á háu stigi. Get ekki hlustað á einhvern æla, hvað þá að horfa á og þurrka upp. Mér finnst ég alltaf jafn mikil hetja að geta lifað þetta af eftir Venna!

Heldég geti með sanni sagt að þetta er það eina sem skyggir á móðurhlutverkið að mínu mati...


En Keikó?

Ég get ekki að því gert en mér hefur fundist allt þetta mál um Bobby greyið hálfkjánalegt... Bæði koma hans hingað til lands og svo fréttaflutningur þessa dagana um dauða hans.

Þetta minnir allt á hið kjánalega Keikó mál, enda hvorutveggja með pínlegustu sjónvarpsútsendingum í manna minnum þegar báðir þessir karakterar voru myndaðir í bak og fyrir við komuna til landsins. Man ekki betur en að útsendingar hafi meiraðsegja hafist áður en vélarnar lentu... Þvílík vitleysa!

Veit ekki hvort Keikó kallinn er lífs eða liðinn en ef hann hefur ekki enn fengið sinn reit þá fer ég hér með fram á það hann verði einnig jarðsettur á Þingvöllum.


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga um mann

Ég ætla að segja ykkur frá manni, manni sem mér finnst æði merkilegur. Hann heitir Stefán Bjarnason og er 97 ára gamall, verður 98 ára í maí. Stefán býr að Sunnuvegi í Reykjavík og er held ég ekkert að fara þaðan því hann getur ekki hugsað sér að fara á elliheimili.

Maðurinn er  fyrir margt merkilegur einstaklingur, hann hefur alla tíð unnið mikið, verið á kafi í allskyns félagsmálum ásamt því að vera einn heitasti Kommúnisti sem land þetta hefur alið af sér. Sem dæmi má nefna að á meðan fæturnir virkuðu eins og þeir eiga að gera þá gekk hann Keflavíkurgöngurnar langt kominn á fullorðinsár. Sunnuvegurinn þótti (og þykir enn) ægifín gata og þar bjó eðal fólk, sjálfsagt flestir í fínum störfum ásamt því að vera sjálfstæðismenn. Það var því ekki mikil gleði í hverfinu þegar Stefán málaði hús sitt svo rautt að ef maður horfir í átt að Sunnuveginum frá Suðurlandsveginum þá ser maður húsið hans skera sig úr frá öllu öðru.

Sonur Stefáns er Ragnar Stefánsson jarskjálftafræðingur, Raggi skjálfti, en ásamt honum á hann allavega 2 dætur til viðbótar. Afkomendur hans og konu hans, Rósu Kristjánsdóttur heitinnar, eru nú orðnir nokkuð margir, hann á til að mynda orðið 3 langalangafabörn. En þó fjölskyldan sé stór þá hefur hann allt á hreinu um alla, það er, hann veit nákvæmlega hvað hver og einn gerir, hvernig fólkinu hans vegnar og hvar allir eru staðsettir í heiminum, enda er heilinn ennþá velvirkur.

Enn þann dag í dag fylgist hann vel með baráttu verkalýðsins, launakjörum og öðru og veit ég til þess að hann hringir reglulega í Eflingu stéttarfélag til þess að fá fréttir af hinu og þessu.

Stefán er vinamargur maður og oft er nokkuð gestkvæmt á Sunnuveginum. Þar hittast menn til að ræða málin yfir kaffi og oftar en ekki er kaffið bragðbætt með einhverju öðru en mjólk. Hann hefur gaman af því að fara með vinum sínum á barinn og gerir það reglulega, geri aðrir betur!

Á barnum hefur hann kynnst mörgu fólki og má segja að hann sé heiðurskúnni á ákveðnum bar í miðbæ Reykjavíkur. Meðal þeirra sem kynnst hafa Stefáni og hafa gaman af því að vera í návist hans er söngkonan Andrea Gylfadóttir. Honum tókst að heilla hana og öfugt.

Afmæli Stefáns eru engu lík. Þá fyllist húsið hans af góðu og skemmtilegu fólki, haldnar eru ræður, sungið og menn og konur fara með gamanmál. Þar er drukkið og djammað að hætti Stefáns Bjarnasonar og skiptir þar engum togum hvort um er að ræða 90 ára afmæli eða 97 ára!

Það er svo margt hægt að skrifa um þennan merka mann enda hefur hann gert ýmislegt á sinni löngu ævi. Ég verð að viðurkenna það að ég veit sjálfsagt ekki nema brotabrot af því sem hann hefur gert eða því sem hann gæti gert. Ég veit það bara að hann er í miklu uppáhaldi hjá mér og veit ég fátt skemmtilegra en að fara til hans þegar ég kem til Reykjavíkur. Þá getum við spjallað um lífið og tilveruna, launabaráttu og réttlæti/óréttlæti heimsins.

Stefán Bjarnason er langafi minn.

 Venni og afi Hér eru afi og Venni minn, tekið í apríl 2007.

 


Ég er heppin...

Sett inn 1.jan ´08 143   Sett inn 1.jan ´08 016

Heart Þessir tveir eru svo æðislegir og dásamlega vel heppnaðir Heart


Lögreglan á prósentum?

Við hjónin skelltum okkur á blót hér í fyrra, Fellablótið. Það var haldið hér rétt fyrir neðan götuna okkar, í fjölnýtihúsi Fellabæjar en þar sem það var fljúgandi hálka og ég ólétt þá ákvað ég að fara á bílnum. Nágrannakona mín átti þrjár vikur eftir af sinni meðgöngu og fór því líka á bíl, alla þessa leið Tounge

Allavega, við vorum báðar stoppaðar af lögreglunni á heimleið. Lögreglan var á eftir henni hérna upp þessa einu götu og hoppaði útúr bílnum til að ræða við hana þegar hún hafði lagt bíl sínum hér fyrir utan. Venjubundið; "Hefurðu smakkað áfengi í kvöld" og allt það. Hún steig útúr bílnum og sagði þeim að hún hefði nú takmarkaða lyst á að drekka og löggan bað hana bara vel að lifa...

Ég skutlaði einni sem vinnur með mér heim eftir blót en hún býr hinum megin í bænum (sem er nú ekki stór...). Löggan birtist rétt eftir að ég fór af bílastæðinu við íþróttahúsið, elti mig heim til hennar og blikkaði mig þar fyrir utan. Stökk út og tékkaði hvort ég hefði drukkið og svona...

Mér finnst flott hjá löggunni að vakta skemmtanir af þessu tagi og sjá til þess að þeir sem eru svo vitlausir að keyra undir áhrifum séu stoppaðir EN ég vil sjá lögguna á bílastæðinu! Ég er handviss um að það skili frekar árangri heldur en að hún birtist alltíeinu einhversstaðar úr leyni eftir að fólk er farið af stað. Er sumsé nokkuð viss um að margir sem ætluðu sér að keyra undir áhrifum myndu hætta við ef þeir hittu lögguna við bílinn...

Er lögraglan á prósentum? Það mætti stundum halda það! "Ef þið stoppið einhvern sem er fullur þá fáið þið 10% af sektinni hans/hennar í skemmtisjóð fyrir ykkar umdæmi...".


mbl.is Fylgst sérstaklega með ölvunarakstri á þorrablótatímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoltið...

Það sem við mæðginin vorum stolt af frænda, Hannesi Jóni, í þessum leik! Ég leyfði púkanum að vaka aðeins lengur en venjulega til að horfa á leikinn og var minn maður gjörsamlega að kafna úr spenningi. Í hvert sinn sem einhver skoraði þá heyrðist: "Varidda Hannes frændi mamma?!". Og úr því að frændi stóð sig svona vel gat ég svarað sjösinnum með bros á vör "Já Venni, þetta var frændi!", þá stóð minn maður upp og steig villtan dans, algjör dúlla...

Annars hlakka ég til mótsins. Er í skýjunum yfir því að vera heima og geta með góðri samvisku horft á alla leiki íslenska liðsins ásamt  Venna mínum, jafnvel þó hann tali stanslaust enda er hann að verða ansi áhugasamur um boltann og spyr í sífellu af hverju þessi gerði þetta eða hitt og afhverju dómarinn dæmi svona og svona. Inná milli má svo heyra hann blóta dómurunum ef honum finnst á Íslendingum brotið...

Besta setningin í kvöld var samt: "Mamma, Kristjana frænka verður örugglega reið við Hannes ef dómarinn þarf að skamma hann eitthvað eða reka hann útaf...".


mbl.is Öruggur sigur Íslands, 33:28
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Það held ég nú...

Hver?

Guðný Drífa Snæland
Guðný Drífa Snæland

Dóttir Tótu og Inga, eiginkona Einars Arnar, móðir Vernharðs Inga og Ragnars Sölva. Búsett á Héraðinu, brottfluttur Reykvíkingur. Starfandi leiðbeinandi í fæðingarorlofi.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Venni og afi
  • Sett inn 1.jan ´08 016
  • Sett inn 1.jan ´08 143

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband